kristin

Kynning á vetrarstarfinu í Árbæ

Kynningarfundir á vetrarstarfinu í Árbæ verða núna í september og eru haldnir í sal leikskólans, foreldrar og forráðamenn er hvattir til að mæta á fundina og kynna sér vetrarstarfið á þeirri deild sem barn þeirra dvelur á.

Dyggðakennsla í Árbæ

Dyggðakennsla eða lífsleikni nám barna í Árbæ birtist í öllu starfi og stefnu leikskólans og felur í sér viðleitni til að dýpka skilning barnsins á sjálfu sér.
Lífsleikni barna er efld með því að örva tilfinningaleikni þeirra í gegnum dagleg samskipti og á skipulagðan hátt.
Sé börnum skapað leikumhverfi þar sem sköpun og sjálfstæð hugsun fær að njóta sín þá eflist leikni þeirra til að takast á við umhverfið.
Þegar börn læra að bera virðingu fyrir sjálfum sér, styrkist sjálfstraust þeirra og þau verða hæfari í samskiptum við aðra. Að því leiðir að börnin eiga auðveldara með að fara eftir þeim reglum sem ríkja í samfélaginu og læra að bera virðingu fyrir umhverfinu og margbreytileika einstaklingsins (Skólanámskrá Árbæjar: 9).

Markmið Árbæjar

Eitt helsta markmið Árbæjar er að efla félagslega færni einstaklingsins en samkvæmt Daniel Goleman sem skrifaði hina þekktu bók Tilfinningargreind vegur það þyngra að vera félagslega læs á umhverfi sitt en hin svokallaða greindarvísitala. Þetta fellur vel að Heilsustefnunni, því að í viðmiðum Heilsuskólanna kemur fram að skilgreining á heilsu er sú að góð heilsa er andleg, líkamleg og félagsleg vellíðan. Það er hægt að vera við góða heilsu þrátt fyrir sjúkdóma eða fötlun.


Markmið leikskólans er að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik og starfi.

Ekkert verður af verkfalli leikskólakennara

Laugardaginn 20. ágúst sl. skrifuðu leikskólakennarar og Launanefnd sveitarfélaga undir kjarasamning og verkfalli leikskólakennara var aflýst.
Leikskólastarfið í Árbæ gengur því sinn vanagang og nokkrir nýnemar bætast í hópinn í dag.

Að loknu sumarfríi í Árbæ

Leikskólinn Árbær opnaði aftur að sumarfríi loknu 4. ágúst sl.
Nokkrir nýir starfsmenn hafa bæst í hópinn.
Hægt er að skoða nöfn starfsmanna og hvar þeir starfa ef farið er inn á krækjuna: Um okkur, hér á heimasíðunni.
Aðlögun nýnema stendur yfir núna í ágúst.

Unnur Stefánsdóttir formaður Heilsusamtakanna lést 8. ágúst sl.
Við vottum aðstandendum hennar og Heilsuleikskólasamfélaginu öllu samúð okkar.
Það er erfitt að horfa á eftir svo kröftugum leiðtoga sem Unnur var.

Hjóladagur

Fimmtudaginn 23. júní 2011 verður hjóladagur í Árbæ.  Þá mega börnin koma með hjól í leikskólann.  Við lokum bílastæðinu fyrir bílum og setjum upp hjólabrautir fyrir börnin.  Yngri börnin verða fyrir hádegi frá 10 -11 og eldri börnin verða eftir hádegi frá 13 -14. 
við minnum á að börn sem eru á tvíhjóli verða að vera með hjálm.
kv. Starfsfólk Árbæjar