Húsnæði, útileiksvæði

Eins og áður er sagt er Árbær  fjögurra deilda leikskóli sem er 639,8 fm að stærð. Húsið skiptist í fjórar deildir og miðrými. Hver deild hefur þrjú herbergi til umráða ásamt lítilli geymslu og snyrtingu barna. Í sitt hvorum enda hússins eru herbergi sem allar deildir skiptast á  að nota. Annað þeirra er notað í listsköpun og hitt  undir byggingarkubba og hlutverkaleik. Tveir mjög rúmgóðir fataklefar með salernum við útihurð eru sitt hvorum megin í húsinu. Í miðrými er eldhús, þvottahús, ræstigeymsla, kaffistofa, skrifstofa leikskólastjóra, salur, undirbúningsherbergi, viðtalsherbergi, salerni fyrir fatlaða og fataklefi og salerni starfsmanna.


Deildirnar eru nefndar eftir örnefnum í Fosslandi og heita þær Kringlumýri, Stekkjarlækur, Fosskot og Kotatún (Guðmundur Kristinsson. Ath.


Útileiksvæði Árbæjar snýr í suður og lóðin er umkringd trjáplöntum sem eiga eftir að skýla fyrir kuldastrekking sem kemur frá ánni þegar þeim vex ásmegin.


 


Vestan  við húsið er gróðurhús sem við fluttum með okkur frá “gamla”Árbæ. Þar eru ræktaðar gulrætur, tómatar, paprikur, gúrkur, jarðarber o.fl. Einnig er safnkassi fyrir lífrænan úrgang og lítill reitur fyrir kartöflur.


 

Leikur og leikskólastarf


 


Hugmyndafræði leikskólans


 


Þegar farið var að vinna að markmiðssetningu fyrir leikskólann Árbæ voru Howard Gardner og Daniel Goleman og þeirra kenningar ofan á þegar hugmyndafræði var valin.


Hugmyndir Gardners um greindina falla vel að hugmyndum leikskólafræðanna um alhliða þroska barna. Þar skiptir miklu máli að átta sig á að hver einstaklingur býr yfir hæfni í öllum greindarþáttum. Flestir geta þróað hverja greind í viðunandi getustig. Greindirnar vinna saman á flókinn hátt. Þær eru eftirfarandi:


 



  • málgreind
  • rök-og stærðfræðigreind
  • rýmisgreind
  • líkams og hreyfigreind
  • tónlistargreind
  • samskiptagreind
  • sjálfsþekkingargreind
  • umhverfisgreind

( Armstrong, Thomas. 2001).


 


 Ef greindarþættir Gardners eru bornir saman við Aðalnámskrá sést að  í leikskólanum erum við  að vinna að öllum greindarþáttunum, sem eru a.m.k. átta og rætt hefur verið um þá níundu sem er tilvistargreind en þar er átt við að fólk velti fyrir sér tilgangi lífsins og öðrum stórum spurningum á heimspekilegan hátt.


Goleman hvetur okkur til að;


 



  • þekkja eigin tilfinningar og annarra
  • þekkja okkur sjálf
  • hafa stjórn á tilfinningum okkar, bæði hvað varðar okkur sjálf og í samskiptum við aðra.

 


 


Námsefni sem nefnist Stig af stigi og er byggt er á kenningum þessara fræðimanna  hefur verið tekið til notkunar í Árbæ. Það er þýtt og staðfært af ráðgjafarstofunni Reyni á Akureyri. Þar er aðaláherslan lögð á samverustundir þar sem fjallað er um tilfinningar og siðfræði. Til aðstoðar eru leikbrúðurnar Hvutti hvatvísi, sem er eins og nafnið gefur til kynna mjög hvatvís, og Snigillinn staðfasti, sem reynir að halda aftur af honum.


 


Stig af stigi er auðveld leið:


 



  • til að ræða tilfinningar
  • til að æfa börn í að leysa úr vandamálum
  • til að kenna börnum aðferðir sem draga úr árásarhneigð.