Heilsuleikskóli

Heilsuleikskóli


 


 


Leikskólinn stefnir að því að tileinka sér viðmið heilsuleikskóla og hefur notað heilsubókina sem matstæki í þrjú ár.Í viðmiðum heilsuleikskóla stendur m.a.:


 


 


Hreyfing


 


Umhverfið þarf að bjóða upp á aðstöðu bæði úti og  inni til að þjálfa jafnt gróf- og fínhreyfingar til að styrkja barnið líkamlega, andlega og félagslega. Markviss hreyfiþjálfun hefur einnig áhrif á málþroska og málskilning barna og þar með eykst félagsfærni og leikgleði sem eykur vináttubönd.


 


Næring


 


Stuðla skal að góðum matarvenjum og hollustu. Gæta skal þess að hafa fæðið sem fjölbreytilegast og nota sem minnst af fitu, sykri og salti. Vatn skal vera aðgengilegt fyrir börn og starfsmenn.


 


Efling á sjálfsvirðingu


 


Umhverfi og aðstæður eiga að veita barninu öryggiskennd með því að búa því hlýju, festu og takmarka óæskilegt álag. Ánægjulegt vinnuumhverfi eflir gagnkvæma virðingu, sjálfstraust, samkennd og samstöðu og samstarf allra í samfélagi heilsuleikskólans.


 


Umhverfisvernd


 


Leitast skal við að móta umhverfisstefnu. Gæta skal ábyrgðar og virðingar fyrir náttúrunni og umhverfinu.


 


(Anna Björg Aradóttir, Anna Lea Björnsdóttir, Guðlaug Sjöfn Jónsdóttir, Unnur Stefánsdóttir. 2002).


 


 


           


 


 

Leikurinn


 


Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins og kennsluaðferð leikskólakennarans.


Í leiknum er barnið að skapa. Frjáls og sjálfsprottinn leikur er hið eðlilega tjáningarform barns og æðstur allra leikja. Hann er gæddur lífi með upplifunum og daglegum störfum barna og fullorðinna. Leikur endurspeglar reynsluheim barnsins, þá menningu og samfélag sem barnið býr í. Barnið lifir sig inn í þá atburði sem gerast í kringum það. Í leik rifjar barnið upp það sem það hefur séð, heyrt og upplifað, lætur ímyndunaraflið ráða ferðinni og umbreytir persónum og atburðum eftir skilningi sínum og tilfinningum. Spuninn í leiknum þróast oft í samráði við leikfélaga. Við notum mikið opið leikefni. Það er allt sem börnin leika sér með en leiðir ekki til fyrirfram ákveðinna lausna. Eingöngu er háð hugmyndum barnsins hvernig og hver lausnin er.  Leikefni sem er notað í leikskólanum er m.a. einingakubbar, stórir kubbar, vatn, sandur, leir, alls konar litir og málningog verðlaust efni (umbúðir o.þ.h.) .


Í Árbæ miðum við heildarstarf leikskólans við leikinn. Hann fléttast inn í dagskipulagið. Lögð er áhersla á að hvert og eitt barn fái notið  bæði hvíldar og útrásar í leiknum og umgangist hvert annað af virðingu. Leikskólakennarinn tekur þátt í leiknum með börnunum, styður og hvetur og gefur tækifæri til að beita rökhugsun og sýna frumkvæði (Valborg Sigurðardóttir. 1991).


 


Lífsleikni


Lífsleikni birtist í öllu starfi og stefnu leikskólans og felur í sér viðleitni til að dýpka skilning barnsins á sjálfu sér.


Lífsleikni barna er efld með því að örva tilfinningaleikni þeirra í gegnum dagleg samskipti og á skipulagðan hátt. Sé börnum skapað leikumhverfi þar sem sköpun og sjálfstæð hugsun fær að njóta sín þá eflist leikni þeirra til að takast á við umhverfið. Þegar börnin læra að bera virðingu fyrir sjálfum sér, styrkist sjálfstraust þeirra og þau verða hæfari í samskiptum við aðra. Af því leiðir að börnin eiga auðveldara með að fara eftir þeim reglum sem ríkja í samfélaginu og læra að bera virðingu fyrir umhverfinu og margbreytileika einstaklingsins ( Leikskólinn Síðusel. 1997).


 


Markmið:



  • að tileinka sér undirstöðuatriði heilbrigðs lífs og lífsviðhorfa í samneyti við jafningja í leik og starfi
  • að vera umburðarlynd gagnvart ólíkum skoðunum, menningu og reynslu
  • að bera virðingu fyrir náttúrunni, dýrum og jurtum
  • að þekkja eigið sjálf, þróa með sér jákvæða sjálfsmynd og tilfinningu fyrir eigin getu.

 


Leiðir:



  • námsefnið Stig af stigi
  • hafa fáar einfaldar reglur
  • hjálpa börnunum til að skilja, skynja og skapa
  • hvetja til útiveru og vettvangsferða til að skoða náttúruna og njóta hennar.

 


 


 



 


Daglegt líf í leikskólanum


 


 


 


 


 


Athafnir daglegs lífs í leikskólanum mótast af andlegum og líkamlegum þörfum barnanna. Skipulag og ákveðnar tímasetningar skapa öryggiskennd.


 


Markmið:



  • að hvetja til frumkvæðis og sjálfstæðis barnanna
  • að þarfir barnahópsins séu ávallt í fyrirrúmi.

 


Leiðir:


 



  • Hópastarf. Með því að starfa saman í hóp, læra börnin að þekkja og treysta hvert öðru og leggja þar  grunn að vináttu og samstarfi. Börnin eru í sama hóp allt skólaárið og er skipt í hópa eftir aldri og þroska

 



  • Dagskipulag skal unnið með það í huga að námssviðin tengist hinu daglega lífi, ákveðin tímasetning og skipulag skapar öryggi hjá barninu og stuðlar jafnframt að samfelldum tíma til leikja og skapandi starfa

 



  • Notalegur tími skapist við matarborðið sem notaður er til að spjalla, styrkja góða borðsiði og sjálfsbjargarviðleitni barnanna

 



  • Í fataherbergi gefist góður tími til að styrkja jákvæð samskipti og sjálfstæði þeirra

 



  • Hvíldartíminn verði ánægjuleg samverustund þar sem öryggiskennd eflist, tengsl við hvert barn og barnahópinn í heild styrkist

 


 



  • Stuðlað er að því að börnin nái sjálf valdi á hreinlætisvenjum sínum og beri ábyrgð á þeim þegar þau hafa þroska til.Mikilvægt er   að börnin finni hlýju og nærfærni hins fullorðna.

 


 


 


 


Í leikskólanum Árbæ leggjum við áherslu á að börn og foreldrar finni að þau séu velkomin í leikskólann.