Lýðræðislegir dagar
Markmið þróunarverkefnisins er þríþætt:
- Að semja námskrá í lýðræði og mannréttindum fyrir leikskólann Árbæ.
- Að starfsfólk leikskólans fái kynningu og þjálfun í lýðræðislegum starfsaðferðum.
- Að starfsfólk leikskólans skilgreini þátt lýðræðis og mannréttinda í starfi leikskólans.
Greinagerð
Samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla (2011) er forsenda lýðræðis samábyrgð, meðvitund og virkni borgaranna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt og hafa áhrif nær og fjær. Virðing fyrir manngildi og heilbrigði barna og ungmenna felur bæði í sér virðingu fyrir mannréttindum þeirra og viðurkenningu á hæfileikum þeirra og þroskamöguleikum. Viðhorf, gildismat og siðferði eru ríkir þættir í lýðræðismenntun jafnframt því sem þau atriði fléttast saman við aðra grunnþætti menntunar. Skólum ber að rækta það viðhorf að samfélagið eigi að vera lýðræðislegt og einstaklingarnir gagnrýnir og með framtíðarsýn.
Lýðræðis- og mannréttindamenntun byggist á gagnrýninni hugsun og ígrundun um grunngildi samfélagsins. Slíkt nám gerir ráð fyrir samstarfi út fyrir veggi skóla engu síður en samstarfi í skólanum. Leiðarljós leikskólastarfs taka mið af því að leikskólinn sé vettvangur þar sem leggja á áherslu á gildi og starfshætti sem renna stoðum undir lýðræðislegt samfélag. Í leikskóla eiga foreldrar, starfsfólk og börn að vera samstarfsaðilar. Lýðræðislegt leikskólastarf byggist á jafnrétti, fjölbreytileika, samábyrgð, samstöðu og viðurkenningu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Þar eiga börn að finna að þau eru hluti af hópi og samfélagi þar sem réttlæti og virðing einkenna samskipti. Litið er á börn sem virka borgara og þátttakendur þar sem hver og einn fær tækifæri til að leggja sitt af mörkum til að hafa áhrif á umhverfi sitt.
Samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla (2011) ber að stuðla að jafnrétti og virkri þátttöku barna í leikskólastarfi með því að skapa þeim tækifæri til að upplifa lýðræðisleg vinnubrögð og samskipti í daglegu starfi. Þannig öðlast þau skilning á því hvað lýðræði felur í sér, læra lýðræðisleg gildi og vinnubrögð og þróa með sér borgaravitund. Virða skal innsæi, reynslu, færni og skoðanir barna og taka mið af sjónarmiðum þeirra við skipulagningu leikskólastarfs og gefa þeim þannig tækifæri til að taka þátt í ákvörðunum um verkefni og vinnubrögð. Lögð skal áhersla á að virða sérstöðu og sjónarmið hvers einstaklings og veita börnum stuðning í daglegum samskiptum.
Þetta verkefni tekur mið af áherslum nýútkominnar Aðalnámskrá leikskóla (2011) en fellur ekki undir daglegt starf leikskólans eins og staðan er í dag. Það krefst fræðslu, þjálfunar og undirbúnings og því er mikilvægt fyrir velgengni þess og framgang að fá sérfræðinga til að fræða og leiðbeina starfsmanna- og barnahópnum í lýðræðislegum starfsháttum.
Áætlaðar afurðir verkefnisins
Námskrá í lýðræði- og mannréttindum fyrir leikskólann Árbæjar
Verkefnabanki með leiðbeiningum um lýðræði og mannréttindi í leikskólastarfi
Vel þjálfað starfsfólk sem getur beitt lýðræðislegum starfsháttum í daglegu starfi
Verkefnisstjóri
Dr. Anna Magnea Hreinsdóttir, leikskólafulltrúi Garðabæjar
pplýsingar um verkefni – markmið verkefnis
Að verkefnisstjórn semji námskrá í lýðræðislegum starfsaðferðum fyrir leikskólann Árbæjar
Að starfsfólk auki skilning sinn á lýðræðislegum starfsaðferðum og mannréttindum í daglegum samskiptum í leikskólastarfi
Að börn læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.
Að leikskólinn verði lýðræðislegur vettvangur og lærdómssamfélag þar sem starfsfólk, foreldrar og börn eru virkir þátttakendur og hafa áhrif á ákvarðanir um málefni leikskólans.
Að leikskólinn geti þannig tekið þátt í að skapa samábyrgt og sjálfbært samfélag.
Að taka mið af því að barna bíður að taka þátt í lýðræðissamfélagi og læri til þess.
Að í öllum starfsháttum að borin sé virðing fyrir manngildi hvers og eins og að hvatt sé til samvinnu og samstarfs milli barna, starfsfólks, foreldra og nærsamfélags.
Að leikskólinn verði virkur þátttakandi í samfélaginu og hafi áhrif á það.
Að starfshættir leikskólans stuðli að því að börn læri að bera virðingu og umhyggju fyrir öðru fólki, þrói með sér samkennd, tillitssemi og vináttu.
Þýðing verkefnisins
Í nýútkominni Aðalnámskrá leikskóla (2011) er lögð áhersla á lýðræði og mannréttindi í öllum samskiptum barna og fullorðinna í samþættu starfi. Áskorun leikskólans Árbæjar er að starfshættir leikskólans taki mið af þessari áherslu og að hún endurspeglist í daglegu starfi leikskólans. Starfsfólk þarf því að fá kynningu og þjálfun í lýðræðislegri hugsun og vinnubrögðum til að geta skapað aðstæður í leikskólanum svo að börn fái ríkuleg tækifæri til að læra til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræðislegum leikskóla.
Í skólanámskrá leikskólans Árbær er lögð áhersla á dyggðakennslu og lífsleikninám og birtist það í öllu starfi og stefnu leikskólans og felur í sér viðleitni til að dýpka skilning barnsins á sjálfu sér. Lífsleikni barna er efld með því að örva tilfinningaleikni þeirra í gegnum dagleg samskipti og á skipulagðan hátt. Sé börnum skapað leikumhverfi þar sem sköpun og sjálfstæð hugsun fær að njóta sín þá eflist leikni þeirra til að takast á við umhverfið. Þegar börn læra að bera virðingu fyrir sjálfum sér, styrkist sjálfstraust þeirra og þau verða hæfari í samskiptum við aðra. Af því leiðir að börnin eiga auðveldara með að fara eftir þeim reglum sem ríkja í samfélaginu og læra að bera virðingu fyrir umhverfinu og margbreytileika einstaklingsins (Skólanámskrá Árbæjar:9).
Starfsfólk leikskólans Árbæjar er áhugasamt um að auka hlut lýðræðis í daglegu starfi en vantar til þess þjálfun. Innan leikskólans starfa áhugasamir deildarstjórar sem munu leiða verkefnið ásamt leikskólastjóra, sérkennslustjóra og verkefnastjóra. Verkefnastjórnin mun fá til liðs við sig helstu sérfræðinga í þessum málum og leita eftir reynslu þeirra sem hafa unnið eitthvað með lýðræði í leikskólastarfi. Í verkefninu verður lögð áhersla á að fræða og leiðbeina starfsfólki leikskólans, efna til samræðu milli starfsfólks, skiptast á reynslu og viðhorfum.
Stjórnun og mat á verkefni: Verkefnisstjórn verður skipuð leikskólastjóra, sérkennslustjóra og deildarstjórum. Verkefnisstjóri er Anna Magnea Hreinsdóttir, leikskólafulltrúi í Garðabæ. Hlutverk verkefnisstjórnar er að hafa yfirumsjón með gerð og þróun námsskrá um lýðræði og mannréttindi fyrir leikskólann Árbæ, skipuleggja fræðslu og leiðbeina starfsfólki við innleiðingu lýðræðislegra starfshátta í daglegu starfi. Verkefnisstjórn mun hittast mánaðarlega, halda utan um framgang og mat á verkefninu, skrifa lokaskýrslu og kynna verkefnið út á við.