Læsi í fjölmenningarlegu leikskólastarfi – Lokaskýrsla

Læsi í fjölmenningarlegu leikskólastarfi – Að læra um ólíka heima, vera forvitin og fróðleiksfús

Þegar unnið er með fjölmenningarlegum barnahópi í leikskóla er mikilvægt að hafa í huga að hvert barn fái notið sín sem einstaklingur og að starfið endurspegli menningu hvers barns að einhverju leyti. Gera þarf öllum börnum kleift að vera þátttakendur í leikskólastarfinu og stuðla þarf að jákvæðu umhverfi með fjölbreyttu námsefni sem endurspeglar fjölbreytileika mannlífsins. Flest börn eru fljót að aðlagast nýju tungumáli og eiga auðvelt með að læra fleiri en eitt tungumál. Móðurmálið er grunnurinn og þarf að hlúa að því til að börn geti lært nýtt tungumál. Foreldrar gegna mikilvægu hlutverki í að efla málvitund og færni í tjáningu og að koma á virku tvítyngi. Kennurum ber að virða móðurmál barnsins til dæmis með því að gera það sýnilegt í leikskólanum og hvetja foreldra til að tala móðurmál sitt við börnin sín. Einnig er mikilvægt að tengja móðurmál barna við íslensku og er persónuleg orðabók barnsins góð leið til þess. Þá er orðið táknað, skrifað á móðurmáli barnsins og á íslensku. Það getur einnig hjálpað tvítyngdu foreldri til að læra íslensku. Aðlögun barna og foreldra, sem og gott foreldrasamstarf, gegnir lykilhlutverki í vinnu með fjölmenningarlegum barnahópi. Góð samvinna og traust til foreldra veitir börnum öryggi og sjálfstraust í skólastarfinu og stuðlar að betri námsárangri þeirra og hjálpar þeim að aðlagast nýju heimalandi. Oft er menning barnanna gerð sýnileg í leikskólanum sem getur spornað við fordómum og stuðlað að víðsýni barna og foreldra. Foreldrar eru mikilvægir í því að gera leikskólastarfið fjölmenningarlegt og geta til dæmis komið með myndir, leikföng, bækur, tónlist og fleira að heiman ásamt því að kenna starfsfólkinu algeng orð á þeirra móðurmáli.

 

Lokaskýrslu er hægt að skoða hér:

Læsi í fjölmenningarlegu leikskólastarfi Lokaskýrsla