Janúar og febrúar hafa verið viðburðaríkir hér í leikskólanum Árbæ með vinnu í læsisverkefninu, upphafi vorskóla elstu barna og hátíðum á borð við þorrablót, dag leikskólans, öskudag, sprengidag og bolludag.
Leikskólarnir í Árborg vinna að þróunarverkefninu Árangursríkt læsi í leikskólum Árborgar þetta skólaár.
Markmið þessa verkefnis er annars vegar að þróa daglegar markvissar samræðustundir með áherslu á aukinn hlustunar- og málskilning barna, aukin orðaforða, hugtakaskilning og tjáningu. Einnig að fræða foreldra leikskólabarna og styðja í hlutverki sínu í málörvun barna. Verkefnið fellur því að árangursríku læsi með það fyrir augum að auka hæfni, þekkingu og leikni barna í læsi í víðum skilningi.
Rannsóknir hafa sýnt fylgni milli málvitundar og hljóðkerfisvitundar, orðaforða barna í leikskóla og einkunna í grunnskóla og því er mikilvægt að grípa snemma inn í. Einnig hafa rannsóknir sýnt mikinn einstaklingsmun á frásagnarhæfni barna með hlusturnar-, rím og orðaleikjum ásamt hljóðgreiningu. Einnig er sannað að bóklestur hefur jákvæð áhrif á málþroska, bernskulæsi og lestrarfærni. Þar er tungumálið í aðalhlutverki og eru samræður því mikilvægur liður í sögustundum. Börn þurfa að vera þátttakendur í hópi þar sem bæði er talað og hlustað.
Hlutverk foreldra ungra barna í málörvun þeirra felst í góðri fyrirmynd, samræðum og lestri. Börn sem hafa greiðan aðgang að fólki sem ræðir við þau, les fyrir þau og kennir þeim ný orð og hugtök eiga öllu jöfnu auðveldara með að ná tökum á lestri. Orðaforða læra börnin ekki síst hjá foreldrum sínum og samræður og lestrarstundir með fjölskyldunni leggja grunn að bernskulæsi.