Fréttabréf Bátatjarnar

 

Fréttir í september

Þriðjudaginn 29. September klukkan 8.10 verður Foreldrafundur í salnum þar sem við förum betur yfir vetrarstarfið okkar og Kristín leikskólastjóri segir okkur frá því helsta sem er að gerast í leikskólanum.  Ég vona að sem flestir sjái sér fært að mæta.

Við erum byrjuð í íþróttatímum, þar sem hvert barn fer einu sinni í viku með sínum hóp í salinn, það er mjög vinsælt hjá okkur.  Ef að börnin eiga stuttbuxur þá þykir sport að fara í þær fyrir tímann, það er mjög gott að geyma þær merktar í skúffu barnsins.

Við erum líka byrjuð í  tónlistartímum sem verða aðra hvora viku og kallast töfratöskutímar, þar æfum við hlustun, takt, fyrsta hljóð í orði, lærum ný sönglög og þulur ásamt mörgu öðru skemmtilegu.  Hina vikuna erum við að vinna meira í listakoti í allskonar skapandi starfi.

Skipulagða kennslan gengur mjög vel, þar sem börnin fara í læsisstundir í hádeginu, þar er verið að vinna með bóklestur, orðaforðan,  teikningu og ýmsa borðvinnu s.s. spil, púsl, leir og fleira.

Hóparnir eru nefndir eftir litunum gulur, rauður, grænn og blár og hver hópur situr saman í matmálstímum með sínum kennara.

Það er alltaf eitthvað um að fatnaður fari á flakk og týnist sem er leiðinlegt.  Ég vil hvetja alla að athuga hvort flíkurnar séu merktar og bendi á stórfína síðu hjá www.rogn.is þar sem hægt er að panta mjög sniðuga nafnaborða og klemmur til að merkja með, algjör snilld t.d. fyrir vetlingana.

Á töflunni okkar hangir auglýsing með myndum af úlpum sem hafa ekki skilað sér.  Þær eru reyndar merktar  en það er alltaf möguleiki að eitthvað slæðist óvart heim ef einhver á eins flík.

Bókaormurinn okkar vinsæli er farin að lengjast og hlykkjast um veggina, þetta er skemmtilegt verkefni sem við viljum gjarnan halda áfram með, mig langar að fá ykkur með mér í lið að reyna að hjálpa börnunum að vanda valið heima, ef hægt er að komast hjá því að velja Disney bækur væri það mjög gott… Þær eiga það til að vera með of erfiðan texta til að lesa fyrir hóp af 20 börnum.   En aðal málið er að við höfum gaman af þessu og njótum þess að lesa og ef bókin er of flókin eða fræðileg þá er þetta bara skemmtilegt verkefni fyrir mig og starfsfólkið að umorða eða segja sögu út frá myndunum.

Fleira er það nú ekki í bili

Ég vona að ég sjái ykkur sem flest á fundinum á þriðjudaginn

Kær kveðja

Eyrún Ósk Sigurðardóttir

Deildarstjóri á Bátatjörn