Þróunarverkefni 2010 -2011


Þróunarverkefni Árbæjar Skapar skólabragur velferð barna?

Markmið verkefnisins er að stuðla að heilbrigði og velferð barna í Árbæ. Menntun barna í Árbæ á að gefa börnunum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og undirbúa þau til að lifa í frjálsu þjóðfélagi í anda skilnings og friðar. 
Tilgangur verkefnisins er að efla líkamlegt og andlegt hreysti barnanna. Einnig að skoða hvernig starfsfólk getur ýtt undir og stutt námsferli barna þar sem frumþörfum barnsins fyrir kærleik, frelsi, virðingu og gleði er mætt. 

Árbær er Heilsuleikskóli þar sem áhersla er lögð á hreyfingu, hollt mataræði og listsköpun. 

Með þátttöku í verkefninu breytir starfsfólk eða bætir eigin starfsaðferðir til þess að ná markmiðum verkefnisins. Það bætir við þekkingu sína og gefst kostur á að tengja fræðin við starfið. Með virkri þátttöku og skapandi vinnu öðlast starfsfólk í Árbæ aukinn skilning á kennslustarfi í leikskólum. Það styrkir það í að hrinda nýjum hugmyndum af stað í eigin kennslu og gefur því færi á að þróa hugmyndir um nám og kennslu á leikskólastiginu. Reynslan sem starfsfólk öðlast við það að vinna verkefnið verður því hvati til áframhaldandi sjálfsskoðunar og þróunar í starfi.

Markmið leiskólastarfs er að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega ( umhyggja og umönnun). Þá er ekki einungis átt við fallegt bros og hlý faðmlög heldur fremur tengsl og samskipti barna og fullorðinna og hvernig þörfum barna er mætt. En eitt aðalmarkmið leikskólastarfs er að hlúa að þörfum barna. Hugtakið nær yfir þarfir eins og ást og öryggi, þörf fyrir aðra og vellíðan. Jafnframt er hugtakið réttindi mikilvægt þegar fjallað er um leikskóladvöl barna og að börn taki þátt í því að byggja upp skilning okkar á þörfum þeirra.

Leiðin að markmiðum verkefnisins

Verkefnið skiptist í fimm áfanga: 

1. Mat unnið af starfsfólki, foreldrum og börnum.
Matið er eftirfarandi: Mat unnið 28. apríl til 4. maí 2010 af starfsfólki. Mat barna er í maí til júní 2010 og mat foreldra er í september 2010.

2. Einu sinni í mánuði frá 1. september 2010 til 1. júní 2011 er tekið myndband í 30 mínútur af barnahóp ( tvö eða fleiri, þarf ekki að vera sömu börnin) á hverri deild þegar hópurinn er í leik.
Starfsmannahópurinn á deildinni horfir á myndbandsupptökuna á deildarfundi sem haldinn er einu sinni í mánuði og ræðir sín á milli um efni myndbandsins og skráir hjá sér ákveðna þætti. 

3. Mat 1. desember 2010. Matið er mat barna, foreldra og starfsfólks. Aðferðin er spurningarlistar.

4. Vorið 2011, frá apríl til júní 2011 meta börn, foreldrar og starfsfólk leikskólastarfið. Matið er borið saman við matið frá haustinu 2010. Niðurstöður verkefnisins eru tilgreindar og ályktun dregin af niðurstöðum. Leitast er við að svara rannsóknarspurningunni: Skapar skólabragur velferð barna?.

5. Skýrsla sett á internetið, heimasíðu Árbæjar.

Úr viðmiðum Heilsustefnunnar

Mæta þarf eftirfarandi frumþörfum mannsins í öllu heilsuleikskólasamfélaginu, bæði einstaklings- og hópbundið.

Kærleikurinn- það að tilheyra einhverjum.
Frelsi- það að hafa valkosti.
Virðing- að vera mikilvægur- viðurkenndur 
Glaðværð- að upplifa gleði.